Sport

Ekkert ævin­týri hjá Fallon Sherrock í ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fallon Sherrock var oft pirruð út í sjálfa sig í leiknum gegn Jermaine Wattimena.
Fallon Sherrock var oft pirruð út í sjálfa sig í leiknum gegn Jermaine Wattimena. getty/Zac Goodwin

Fallon Sherrock tókst ekki að endurtaka leikinn frá því fyrir fjórum árum því hún tapaði í 1. umferð heimsmeistaramótsins í pílukasti í gær.

Sherrock skráði sig í sögubækurnar þegar hún varð fyrsta konan til að vinna leik, og það tvo, á HM 2020. Síðan hefur hún ekki unnið leik á HM og það breyttist ekki í gær.

Sherrock tapaði þá fyrir Hollendingnum Jermaine Wattimena, 3-1. Sherrock byrjaði vel og vann fyrsta settið en gaf svo mikið eftir og Wattimena seig framúr.

„Augljóslega er ég miður mín með úrslitin. Ég spilaði vel á köflum en nýtti ekki færin á lykilaugnablikum og það varð mér að falli,“ sagði Sherrock eftir leikinn í Alexandra höllinni í London í gær.

„Jermaine á allt hrós skilið. Hann var betri í kvöld og refsaði mér fyrir að nýta ekki færin.“

Luke Humphries, sem þykir líklegastur til að verða heimsmeistari, lenti í smá vandræðum með Lee Evans en vann þrátt fyrir það 3-0 sigur. Evans átti samt tilþrif kvöldsins með útskoti upp á 170.

Í hinum leikjum gærkvöldsins á HM vann Florian Hempel Dylan Slevin, 1-3, og Niels Zonneveld sigraði Darren Webster, 3-1.

Fjórir leikir eru á dagskrá á HM í kvöld. Bein útsending hefst á Vodafone Sport klukkan 18:55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×