Sport

Leggur til að HM fari úr Ally Pally

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áhorfendur í Alexandra höllinni létu Gerwyn Price heyra það.
Áhorfendur í Alexandra höllinni létu Gerwyn Price heyra það. getty/Adam Davy

Gerwyn Price, sem varð heimsmeistari í pílukasti fyrir tveimur árum, hefur lagt til breytingar á fyrirkomulagi heimsmeistaramótsins.

Price vann Connor Scutt, 3-0, í 2. umferð HM í gær. Price er umdeildur og áhorfendur í Alexandra höllinni púuðu á hann fyrir leikinn.

„Það er mjög erfitt að koma hingað með fólkið á bakinu. En ég er ánægður með að fólkið var gott og ef þau halda svona áfram er engin ástæða fyrir því að ég geti ekki unnið þetta,“ sagði Price eftir leikinn gegn Scutt.

„Þetta var erfitt. Leikurinn minn var stöðugur. Þetta var ekki mín besta frammistaða en það var smá stress en ég er ánægður að vera kominn áfram.“

Í kjölfarið talaði Price um að hann vildi sjá breytingar á HM og að mótið verði haldið annars staðar en í Alexandra höllinni, eða Ally Pally eins og hún er jafnan kölluð. HM hefur farið þar fram síðan 2007.

„Það er rökrétt. Það er þannig með aðrar íþróttir,“ sagði Price sem vill að HM verði haldið í mismunandi löndum eins og til dæmis HM í fótbolta.

„Þýskaland er að verða stór markaður fyrir pílukastið sem er í sókn um alla Evrópu. Kannski ætti að færa HM til Þýskalands, Hollands, Írlands, Skotlands, Wales eða Belgíu. Ég sé enga ástæðu af hverju það er ekki hægt. Ég er meðvitaður um söguna með Ally Pally en hlutir breytast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×