Enski boltinn

Fannst hann vanvirtur hjá öllum hjá Arsenal nema Arteta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Granit Xhaka talar vel um Mikel Arteta í viðtali við The Athletic.
Granit Xhaka talar vel um Mikel Arteta í viðtali við The Athletic. getty/Clive Brunskill

Granit Xhaka segir að Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hafi verið sá eini sem vildi halda honum hjá félaginu.

Xhaka yfirgaf Arsenal í sumar og gekk aftur í raðir Bayer Leverkusen. Þar hefur hann átt góðu gengi að fagna en Leverkusen er enn taplaust á tímabilinu og á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar.

Í viðtali við The Athletic greinir Xhaka frá því að hann hafi verið nálægt því að fara frá Arsenal eftir að hann lenti í orðaskaki við stuðningsmenn liðsins 2019. Fyrirliðabandið var tekið af honum og allt benti til þess að hann færi til Herthu Berlin. En Svisslendingurinn var áfram hjá Arsenal og segir að Arteta hafi verið stærsta ástæðan fyrir því.

„Félagið sýndi mér litla þrátt fyrir að ég væri fyrirliði. Það var ljóst að þeir vildu losna við mig eins fljótt og mögulegt var fyrir utan einn aðila: Mikel Arteta. Hann sagðist vilja halda mér. En ég var ekki viss,“ sagði Xhaka.

„Ég sá mig ekki spila aftur fyrir Arsenal. Ég sagði við hann: Ég vil bara vera einhvers staðar þar sem stuðningsmennirnir púa ekki á mig. En hann var sannfærandi. Í fyrsta skipti á ævinni tók ég ákvörðun án þess að tala við fjölskylduna fyrst. Ég ákvað að vera áfram. Við féllumst í faðma og ég sneri aftur til æfinga eins og ekkert hefði í skorist.“

Xhaka lék vel á síðasta tímabili sínu með Arsenal þegar liðið var nálægt því að vinna Englandsmeistaratitilinn. Svissneski miðjumaðurinn lék framar en áður og skoraði níu mörk og lagði upp sjö á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×