Enski boltinn

Argur yfir reglunum eftir að Stones meiddist

Sindri Sverrisson skrifar
John Stones meiddist í ökkla þegar hann renndi sér fyrir Beto, sóknarmann Everton, sem var rangstæður.
John Stones meiddist í ökkla þegar hann renndi sér fyrir Beto, sóknarmann Everton, sem var rangstæður. Getty/Martin Rickett

Meiðsli John Stones „líta ekki vel út“ að sögn knattspyrnustjóra Manchester City, Pep Guardiola, en Stones fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í 3-1 sigrinum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

Stones hefur verið óheppinn með meiðsli á þessari leiktíð því hann missti af byrjun tímabilsins vegna meiðsla í mjöðm. Leikurinn í gær var aðeins áttundi leikur hans í deildinni á þessari leiktíð.

Stones meiddist þegar hann reyndi að verjast Beto, sóknarmanni Everton, sem var rangstæður en aðstoðardómarinn var ekki búinn að lyfta upp flaggi sínu. Það pirraði Guardiola auðsjáanlega eins og hann ræddi um við blaðamenn eftir leik:

„Ég skil þetta ekki. Þetta var svo augljós rangstaða og núna er hann meiddur. Þeir segja „þetta er rétt Pep, þú hefur rétt fyrir þér…“ En það er of seint. Þetta er ekki þeim [dómurunum] að kenna. Reglurnar koma frá þeim sem stjórna. En ég skil þetta ekki,“ sagði Guardiola, en dómurum er uppálagt með að bíða með að flagga rangstöðu til að minnka líkurnar á að mistök komi í veg fyrir mark.

Spurður út í meiðsli Stones hafði Guardiola litlar upplýsingar í höndunum: „Þetta lítur ekki vel út en við sjáum til. Þetta var ökklinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×