Innlent

„Verður Grundartangi fal­legri eða ljótari ef við setjum vind­myllur þar?“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór segir tillögurnar í góðum takti við ákall Cop28.
Guðlaugur Þór segir tillögurnar í góðum takti við ákall Cop28. Vísir/Einar

Nærsamfélög ættu að hafa endanlegt ákvörðunarvald um hvort vindorkugarðar byggist þar upp og aðeins á að setja upp vindmyllur á svæðum sem teljast þegar röskuð. Þetta er meðal tillaga sem starfshópur hefur skilað til umhverfisráðherra. Fyrrverandi umhverfisráðherra segir mmikilvægt að byggja upp græna orku en hlífa náttúruperlum.

Niðurstöður starfshóps, sem skipaður var í júlí 2022, um vindorkumál voru kynntar síðdegis. Starfshópinn skipa Hilmar Gunnlaugsson, Björt Ólafsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra og Kolbeinn Óttarsson Proppé fyrrverandi Alþingismaður.

Meðal tillagna hópsins er að sett verði opinber stefna um hagnýtingu vindorku, vindorka verði áfram innna rammaáætlunar og að svæði innan miðhálendislínu verði vernduð fyrir uppbyggingu vindorku auk annarra viðkvæmra svæða.

Þá muni vindorka byggjast frekar upp á svæðum sem þegar eru röskuð af manna völdum, nærsamfélög fái endanlegt ákvörðunarvald hvort vindorka byggist þar upp og tryggður verði ávinningur fyrir nærsamfélög.

Mikilvægt að hlífa náttúruperlum

Fyrrverandi umhverfisráðherra og fulltrúi í starfshópnum segir hópinn hafa verið einhuga um að gera kerfið í kring um vindorku skilvirkara.

„Á sama tíma og við sláum alls ekki af kröfu um náttúruvernd,“ segir Björt.

„Ef vindorka á að byggjast upp á Íslandi þá verðum við að taka hana aðeins nær okkur. Þá verðum við að vera sú kynslóð sem horfir á það græna rafmagn sem við erum stolt af, við hlífum hálendinu, náttúruperlunum okkar fyrir næstu kynslóðir.“

Björt segir mjög mikilvægt að nærsamfélög hagnist af uppbyggingu vindmylla.Vísir/Einar

Tillögurnar munu svo fara fyrir þingið og leggur hópurinn til að þær verði sett sem stefna í formi þingsályktunartillögu um hagnýtingu vindorku. Björt segir miklu máli skipta að færa ferlið nær hérði og eru nú hópur á vegum fjármálaráðuneytisins að vinna að tillögum umþað hvernig tryggja megi nærsamfélögum ágóða af hagnýtingu vindorku. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að sveitarstjórnir, nærsamfélag hafi meira að segja en hefur verið, og að þau fái fyrr í ferlinu ekki bara fregnir af því heldur séu spurð hvort það henti sveitarfélaginu að færa slíka starfsemi inn á sitt skipulag,“ segir Björt.  

Í takt við skilaboð COP28

Ráðherra segir tillögurnar í samræmi við ákall heimsins um græna orku. 

„Nú var verið að ljúka COP28 og þar birtast þessi sömu skilaboð, þetta eru sömu skilaboð út um allan heim. Við finnum það Íslendingar að okkur liggur á,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Í gegn um tíðina hafa landverndarsinnar lýst yfir áhyggjum af sjónrænum áhrifum vindmylla og nefnir Guðlaugur að víða séu lýti í landslagi, til dæmis háspennulínur, þar sem bæta megi við myllum.

„Verður Grundartangi eitthvað fallegri eða ljótari ef við setjum vindmyllur þar? Ég held að enginn segi, ef það verður gert sem ég veit ekkert um, að þeir hætti að keyra Hvalfjörð vegna þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×