„Þetta verður eitthvað algjörlega epískt,“ segir Hallgrímur Egilsson sigurvegari í úrvalsdeildinni í pílu hér á landi.
Littler hefur slegið eftirminnilega í gegn á HM en þessi sextán ára Englendingur hefur unnið alla sex leiki sína á mótinu og einungis tapað sex settum á því öllu.
Humphries hefur eins og aðrir keppendur á HM fallið í skuggann á Littler. Hann hefur farið torfærari leið í úrslitin en spilaði stórvel gegn Scott Williams í undanúrslitunum í gær. Humphries vann leikinn, 6-0, og var með 108 í meðaltal sem er það hæsta sem nokkur keppandi hefur verið með á HM.
„Þessir menn eru báðir bara mjög einbeittir á leikina. Humphries byrjaði mótið illa og Luke Littler hefur líka misstígið sig og var til að mynda heppinn að komast áfram í einum leik. En þeir virðast vera algjörlega taugalausir og eins og þeir séu bara að fara í sunnudagsbíltúrinn að fá sér ís í þessum látum og þessum hita sem er þarna.“
Hallgrímur segir að sá sem tapi í kvöld gæti verið með hæsta meðaltal í sögunni hjá þeim sem hafnar í öðru sæti, í úrslitum HM. Hann segir að leikurinn í kvöld gæti orðið besti úrslitaleikurinn í sögu HM.
Rætt var við Hallgrím í kvöldfréttum Stöðvar 2 áðan. Úrslitaleikurinn hefst klukkan 20:15 í kvöld og verður í beinni á Vodafone Sport.