The Piper segir frá Mel sem er flautuleikari og tónskáld. Hún fær það verkefni í hendurnar að klára alræmdan flautukonsert sem lærimeistari hennar samdi en ekki líður á löngu þar til hún áttar sig á að það er eitthvað skelfilegt falið innan í laglínunni sem ógnar bæði henni og ungri dóttur hennar.
Myndin er að hluta til byggð á ævintýrinu um Rottufangarann í Hamelin (e. The Pied Piper of Hamelin). Í þeirri sögu kom dularfullur flautuleikari til þýsku borgarinnar Hamelin og bauðst til að aðstoða við rottufaraldurinn sem geisaði þar. Hann spilaði laglínu á flautuna og leiddi allar rotturnar í burtu. En þegar yfirvöld neituðu að greiða honum fyrir hjálpina, þá spilaði rottufangarinn annað lag á flautuna og leiddi öll börnin í Hamelin í burtu um miðja nótt, og sáust þau aldrei framar.
Erlingur skrifaði myndina ásamt því að leikstýra henni, en í aðalhlutverkum eru þau Charlotte Hope (Game of Thrones, The Theory of Everything, The Nun) og Julian Sands (A Room With A View, Arachnophobia, The Girl With The Dragon Tattoo). The Piper er ein af síðustu myndum sem Sands lék í, en hann lést snemma árið 2023 í fjallgöngu í Kaliforníu.
Tónlistin, sem spilar lykilhlutverk í myndinni, var samin af Christopher Young sem á að baki glæstan feril sem tónskáld, og þá aðallega fyrir hrollvekjur. Meðal þeirra stórmynda sem hann hefur unnið við eru Hellraiser, Drag Me To Hell, Spider-Man 3, Sinister og The Grudge, og mætti lengi áfram telja upp. Myndin var framleidd af Millennium Media.