Sport

Undrabarnið Littler fær sæti í úr­vals­deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luke Littler hefur sannarlega skotist upp á stjörnuhimininn í pílukasti.
Luke Littler hefur sannarlega skotist upp á stjörnuhimininn í pílukasti. Vísir/Getty

Luke Littler, sem í gær hafnaði í öðru sæti á heimsmeistaramótinu í pílukasti, er meðal þeirra átta keppenda sem fá þátttökurétt í úrvalsdeildinni í pílukasti.

Littler heillaði heldur betur með spilamennsku sinni á heimsmeistaramótinu í pílukasti þar sem þessi 16 ára gamli strákur komst alla leið í úrslit. Þar þurfti hann hins vegar að sætta sig við silfur eftir tap gegn nafna sínum, Luke Humphries.

Littler bætti fjöldan allan af metum á leið sinni í úrslitaleikinn. Hann varð yngsti keppandinn til að vinna leik á heimsmeistaramóti í pílukasti, langyngsti keppandinn til að komast í úrslit og var með besta meðalskorið af nokkrum keppanda á sínu fyrsta móti. Árangur hans á mótinu sá til þess að hann stökk upp um 133 sæti á heimslista PDC og situr hann nú í 31. sæti listans.

Littler verður þó ekki einn í úrvalsdeildinni því eins og áður segir eru átta keppendur sem fá þátttökurétt. Eins og við var að búast munu þekktar stærðir mæta til leiks, til að mynda nýkrýndur heimsmeistari Luke Humphries.

Þá munu þeir Michael van Gerwen, Gerwyn Price, Rob Cross, Michael Smith, Peter Wright og Nathan Aspinall einnig taka þátt. Úrvalsdeildin í pílukasti hefst þann 1. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×