Enski boltinn

De Bruyne: Meiðslin mín kannski lán í ó­láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne í leiknum með Manchester City um helgina.
Kevin De Bruyne í leiknum með Manchester City um helgina. AP/Dave Thompson

Kevin De Bruyne lék aftur með Manchester City um helgina þegar liðið vann stórsigur á Huddersfield Town í enska bikarnum.

De Bruyne hefur ekkert verið með á tímabilinu eftir að hafa þurft að gangast undir aðgerð í haust.

Hann kom inn á sem varamaður í leiknum og var búinn að leggja upp mark eftir aðeins sautján mínútur.

De Bruyne telur að það gæti hafa verið gott fyrir sig og liðið að hann fékk góða hvíld frá boltanum eftir mikið álag undanfarin ár.

„Það er ekki eins og ég hafi þurft á fríi að halda en ég nýtti það vel og ákvað að breyta ókosti í kost,“ sagði Kevin De Bruyne sem lítur því á meiðslin sín sem lán í óláni.

Manchester City hefur staðið sig vel án hans og þó að liðið sé ekki á toppnum í ensku úrvalsdeildinni þá eru þeir ekki langt á eftir Liverpool. Um leið og Belginn kemur til baka verður því mjög gott lið enn betra.

De Bruyne hefur spilað lengi í lykilhlutverki hjá bæði félagsliði og landsliði. Sumrin hafa oft farið í landsliðið og sumarfríin því stutt.

„Þegar ég horfi til baka á minn feril þá er ég búinn að spila undanfarin tíu ár án þess að fá mikið frí. Kannski var það gott fyrir mig að fá tíma til að endurstilla mig og gefa mér tíma í mig sjálfan sem annars er ekki hægt yfir tímabilið,“ sagði De Bruyne.

„Ég vonaðist til þess að ég geta lagt mikið á mig og komið til baka á góðum nótum og mér finnst ég vera að gera það. Ég þarf samt tíma til að komast í betra leikform,“ sagði De Bruyne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×