Mótshaldarar á EM í Þýskalandi áætla að yfir 3.500 íslenskir stuðningsmenn hafi keypt miða á leikina í riðlinum. Gríðarlegur fjöldi stuðningsmanna Íslands verður því saman kominn í München næstu daga.
Handknattleikssambandið hefur því í samstarfi við Sérsveitina, stuðningssveit HSÍ, skipulagt upphitun fyrir stuðningsmenn Íslands á Hofbräuhaus í München. Staðurinn er á móti Hard Rock.
Sérsveitin er mætt til München og ætla þau að tryggja að stemningin fyrir leik og á meðan á leik stendur verði frábær.
Andlitsmálun, treyjusala og sala á íslenskum varningi verður í upphitun stuðningsmanna og hægt verður að kaupa mat og drykk á staðnum.
Veitingastaðurinn er frátekinn fyrir Íslendinga frá klukkan tólf á leikdögum Íslands en í riðlinum verða þeir 12. janúar, 14. janúar og 16. janúar.
Þegar upphitun stuðningsmanna líkur þá færist fjörið í Ólympíuhöllina þar sem leikir íslenska liðsins munu fara fram.
Sérsveitin verður á staðnum og sölubásarnir opnir á eftirtöldum tímum:
12. janúar 13:00 – 15:00 (17.00 Ísland-Serbía)
14. janúar 13:00 – 15:00 (17.00 Ísland-Svartfjallaland)
16. janúar 15:00 – 17:00 (19.30 Ísland-Ungverjaland)