Yfirlýsingin sem birtist í helstu miðlum heims og ber titilinn stolt af því að borga, verður afhent valdamesta fólki heims á World Economic Forum ráðstefnunni í Davos sem nú stendur yfir.
„Okkar beiðni er einföld, að þið skattleggið okkur, ríkasta fólk samfélagsins,“ segir í yfirlýsingunni.
Auðmennirnir eru frá sautján ríkjum heimsins og þar á meðal má finna Valerie Rockefeller, Abigail Disney og leikara á borð við Simon Pegg og Brian Cox, en sá síðarnefndi lék milljarðamæringinn Logan Roy í sjónvarpsþáttaröðinni vinsælu Succession.
Milljónamæringarnir segja í bréfinu að ójöfnuður nálgist nú suðupunkt sem hafi alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfi heimsins samfélög og umhverfi. Guardian fjallar um málið í dag og vísar í nýja könnun sem gerð var á meðal hinna ofurríku í heiminum þar sem fram kemur að 74% þeirra styðji við hærri skatta á þá ríkustu. Um 2300 einstaklingar svöruðu könnuninni en þeir eiga allir eignir yfir einum milljarði dollara.
Fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar að 58% studdu tillögu um 2% auðlegðarskatt fyrir fólk sem ætti meira en 10 milljónir dala, eða um 1,4 milljarða. Þá töldu 54% svarenda könnunarinnar að ójöfnuður væri hættulegur lýðræðinu.
„Þessi könnun bendir til þess að allir í heiminum, þar á meðal þeir ríkustu, vilji að auðjöfrar borgi meiri skatta. Hvar eru leiðtogarnir okkar sem hafa völd til að gera þetta? Við, ríkasta fólkið, erum orðin þreytt á því að ekkert gerist og það er ekki að undra að venjulegt fólk sem lýtur lægra haldi í samfélaginu hafi misst alla þolinmæði,“ segir Guy Singh-Watson, breskur bóndi sem stofnaði matvælaþjónustuna Riverford, í samtali við Guardian.
Breska stéttarfélagið TUC komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að ef ríkustu 140 þúsund mennirnir á Bretlandi þyrftu að borga aukalega 1,7% skatta myndu 10 milljarðar punda bætast við ríkissjóð á ári. Það nemur 1.7 billjónum íslenskra króna (1.743.600.000.000 kr).