Í gær mætti Roma Al Shabab frá Sádi-Arabíu í æfingaleik. Lukaku skoraði sigurmark Rómverja þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Eftir leikinn talaði hann vel um sádi-arabísku deildina.
„Á næstu tveimur árum verður þetta ein af bestu deildum heims,“ sagði belgíski framherjinn.
„Þeir eru að gera mikið og fá stóra leikmenn. Liðin eru að verða betri og spila frábæran fótbolta,“ bætti Lukaku við.
Hinn þrítugi Lukaku er enn samningsbundinn Chelsea til 2026 en er á láni hjá Roma. Hann hefur skorað fimmtán mörk í 25 leikjum fyrir Rómverja í öllum keppnum í vetur. Á síðasta tímabili lék Lukaku sem lánsmaður með Inter.