Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til fundar með Samtökum atvinnulífsins og breiðfylkingu stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins frá því árangurslaus fundur fór fram á fimmtudag. Breiðfylkingin fundaði innan sinna raða í morgun. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir viðræðurnar ekki komnar í strand en boltinn væri hjá Samtökum atvinnulífsins.

„Ef þeim er alvara þá koma þau með meiri og einbeittari samningsvilja en þau hafa gert hingað til,“ segir Ragnar Þór. Það blasi við hvað gerist ef Samtök atvinnulífsins ásamt ríki og sveitarfélögum sjái ekki að sér þegar núgildandi samningar og þar með friðarskylda renni út á fimmtudag.
„En við skulum alla vega vera bjartsýn og vona að fólk sjái tækifærin í því sem við erum að leggja fram og bjóða. Og komi með nýtt, betra og breytt viðhorf inn í viðræðurnar,“ segir formaður VR.
Hugmynd Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambandsins um engar launahækkanir á þessu ári ef opinberir aðilar dragi gjaldskrárhækkanir sínar til baka beri að skoða í ljósi mjög mikilla gjaldskrárhækkana. Fasteigagjöld í Reykjavík hafi hækkað um 25 prósent, tryggingafélög um tíu til tólf prósent og Seðlabankinn hafi meira að segja hækkað sínar gjaldskrár um átta prósent. Það væri hins vegar langsótt að semja um engar launahækkanir á þessu ári.
„Og er ekki til umræðu hjá okkur í hópnum, alla vega í breiðfylkingunni eins og sakir standa,“ segir Ragnar Þór.
Gangur í viðræðum flugumferðarstjóra
En fagfélögin innan ASÍ, fulltrúar opinbera markaðarins og flugumferðarstjórar funda þessa dagana hjá ríkissáttasemjara. Enn er ósamið við flugumferðarstjóra sem fóru í aðgerðir dagana 12. og 14. desember síðast liðinn sem röskuðu áætlunum í millilandaflugi og innanlandsflugi. Þeir hættu hins vegar við boðaðar aðgerðir dagana 18. og 20. desember vegna hamfaranna í Grindavik.

Arnar Hjálmsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir engar aðgerðir á prjónunum nú.
„Staðan núna er bara ágæt. Þetta hefur smá potast í rétta átt í janúar. Þess vegna höfum við ekki verið að boða neinar frekari aðgerðir. Meðan samtalið þokast í rétta átt þá höldum við áfram,“ segir Arnar. Viðræðurnar hljóti á einhverjum tímapunkti að enda meðsamningum.
Mikil óánægja hefur hins vegar verið innan Félags íslenskra flugumferðarstjóra allt frá því samningar losnuðu síðast liðið haust.
„Það er órói meðal sumra félagsmanna. Það er bara eins og gengur og gerist. Þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir,“ segir Arnar Hjálmarsson.