Viðskipti innlent

Snýr aftur eftir stutt stopp hjá Laufinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brynjólfur Bjarnason snýr aftur í bankageirann eftir stutt stopp í sjálbærum lausnum hjá Laufinu.
Brynjólfur Bjarnason snýr aftur í bankageirann eftir stutt stopp í sjálbærum lausnum hjá Laufinu.

Íslandsbanki hefur ráðið Brynjólf Bjarnason í stöðu forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar bankans. Brynjólfur, sem hefur áratugareynslu af störfum í fjármálageiranum, kemur nú aftur til liðs við Íslandsbanka eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra hjá Laufinu frá því í fyrra.

Hann var viðskiptastjóri hjá Fyrirtækjum og fjárfestum hjá Íslandsbanka 2018 til 2023 og þar áður starfaði hann í sjö ár hjá slitastjórn Kaupþings, að því er segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

„Við bjóðum Brynjólf hjartanlega velkominn og fögnum liðsinni hans, enda er hann framúrskarandi leiðtogi og keppnismaður sem hefur á að byggja mikilli reynslu frá fyrri störfum á fjármálamarkaði, svo sem af kaupum, sölu og endurskipulagningu fyrirtækja, stýringu lána- og eignasafna, samningagerð og fleiru. Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við hann,“ segir Kristín Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta.

Brynjólfur er viðskiptafræðingur (BSc) frá Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun og markaðsfræði. Hann hefur einnig lokið stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík og MBA námi frá sama skóla. Þá hefur Brynjólfur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka.

---------






Fleiri fréttir

Sjá meira


×