Fundurinn hefst klukkan 13 og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu í spilaranum að neðan.
Í tilkynningu segir að alls hafi borist 55 umsóknir fyrir tæpa fjóra milljarða króna.
„Áslaug Arna kynnir í dag þau 35 verkefni sem styrkt eru að þessu sinni en heildarfjárhæð styrkja nemur 1.590 milljónum króna. Ætlun styrkjanna er að stuðla að auknu samstarfi háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á sameiningar háskóla og mun ráðherra fjalla um áætlaðar sameiningar háskóla í kynningu sinni.
Verkefnið Samstarf háskóla er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður,“ segir í tilkynningunni.