Luís Castro, þjálfari Al-Nassr, greindi frá því í dag að Ronaldo myndi ekki spila leikinn gegn Inter Miami á morgun þar sem hann sé enn að jafna sig á kálfameiðslum.
Búið var að auglýsa leik Al-Nassr og Inter Miami sem síðasta dansinn milli fótboltarisa sem hafa verið á toppnum undanfarin tuttugu ár eða svo.
Messi og Ronaldo mættust síðast þegar Paris Saint-Germain atti kappi við úrvalslið Ríad, höfuðborgar Sádí-Arabíu, fyrir ári síðan.
Messi og félagar í Inter Miami töpuðu fyrir Al-Hilal, 4-3, í vináttuleik á mánudaginn en mæta Al-Nassr á morgun. Messi skoraði úr vítaspyrnu í leiknum gegn Al-Hilal og Luis Suárez gerði sitt fyrsta mark fyrir félagið.
Inter Miami er á heljarinnar ferðalagi um þessar mundir en liðið undirbýr sig nú undir MLS-tímabilið 2024. Inter Miami komst ekki í úrslitakeppnina á síðasta tímabili.
Ronaldo og félagar í Al-Nassr eru í 2. sæti sádí-arabísku deildarinnar. Portúgalinn er markahæsti leikmaður hennar með tuttugu mörk.