Meðalhiti í Reykjavík í janúar var -0,1 stig. Það er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig, 1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins -0,2 stig og 0,1 stig á Höfn í Hornafirði.
Samkvæmt samantekt Veðurstofunnar var hiti undir meðallagi á mest öllu landinu. Kaldast var á Austurlandi en hlýrra á vestari hluta landsins. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,2 stig á Skarðsheiði en neikvætt hitavik var mest -1,9 stig á Eskifirði.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,0 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -7,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -6,2 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,1 stig á Sauðanesvita þann 8. janúar. Mest frost í mánuðinum mældist -24,9 stig á Sauðárkróksflugvelli.
Úrkoma yfir meðallagi
Úrkoma í Reykjavík mældist 92,7 mm sem er um 5 prósentustigum umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 40,9 mm sem er um 70 prósent af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í janúar 102,2 mm og 130,6 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 18 sem eru þremur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 11 daga sem eru jafn margir og í meðalári.
Fimmtán alhvítir dagar og sólskin undir meðallagi
Það voru 15 alhvítir dagar í Reykjavík í janúar, sem er þremur dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 19, þremur færri en að meðaltali 1991 til 2020.
Þá segir í samantekt Veðurstofunnar að sólskinsstundir í Reykjavík hafi mælst 15,6, sem er 6,9 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 5,7 sem er tæpri einni stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur á landsvísu var 0,3 m/s undir meðallagi. Hvassast var þ. 16. (norðanátt) og þ. 25. Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 1000,5 hPa hPa í Reykjavík. Það er 3,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1041,7 hPa á Fagurhólsmýri þ. 10 og í Skaftafelli þ. 11. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 957,2 hPa á Ísafirði þ. 25.