Enski boltinn

Van Dijk tekur fulla á­byrgð á skrípa­markinu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hughreystir hér Virgil van Dijk eftir leikinn.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hughreystir hér Virgil van Dijk eftir leikinn. Getty/Marc Atkins

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, tók á sig sökina vegna marksins sem Gabriel Martinelli skoraði fyrir Arsenal á móti Liverpool í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Markið var svokallað skrípamark en leikmenn Liverpool færðu Martinelli þá boltann á silfurfati eftir mikinn misskilning. Van Dijk og Alisson markvörður rákust saman við vítateigslínuna og Martinelli gat í framhaldinu sett boltann í tómt markið.

Martinelli kom Arsenal yfir í 2-1 með þessu marki á 67. mínútu en Arsenal vann leikinn 3-1. Liverpool var orðið manni færra þegar Arsenal skoraði þriðja markið.

„Þetta var erfiður dagur. Ég tek fulla ábyrgð á 2-1 markinu. Það er stórt augnablik í leiknum. Ég hefði átt að taka betri ákvörðun og það er sárt fyrir mig,“ sagði Virgil van Dijk. ESPN segir frá.

„Þessi vendipunktur í leiknum skrifast á mig. Ég hefði átt að reyna að sparka boltanum í burtu. Auðvitað hefur svona ekki gerst oft á mínum ferli og ég mun ná mér eftir þetta,“ sagði Van Dijk.

„Ég er ekki að leita af afsökun en Alisson kom aðeins við mig og náði ekki að koma boltanum í burtu. Ég tek fulla ábyrgð á þessu og reyni að passa upp á það að þetta gerist ekki aftur,“ 

„Það er sárt að tapa. Hvernig við töpuðum í dag var algjör óþarfi.“ 

„Það er leiðinlegt að sjá alla stuðningsmennina okkar ferðast alla leið hingað til að sjá liðið tapa og það er ekki gaman að eiga þátt í mistökum. Ég mun leggja mikið á mig og koma sterkari til baka,“ sagði Van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×