Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Bjarki Þór hafi lokið doktorsprófi í stjórnmálasálfræði við Háskólann í Kent í Englandi, en hann sé jafnframt með meistaragráðu í faginu frá þeim háskóla. BS-námi sínu í sálfræði hafi hann lokið við Háskólann í Reykjavík. Bjarki sé stúdent frá Menntaskóla Borgarfjarðar.
Meðfram doktorsnáminu í Kent hafi Bjarki kennt sálfræði og tölfræði á bæði grunn- og meistarastigi. Frá lokum doktorsprófs hafi Bjarki starfað við kennslu og rannsóknir við Háskólann á Bifröst en muni fara í leyfi á meðan hann gegnir starfi aðstoðarmanns.
Bjarki sé fæddur árið 1994 og hafi alist upp á Brekku í Norðurárdal og hafi í gegnum tíðina búið í Borgarfirði, Reykjavík og Canterbury í Englandi.
Bjarki hafi gengt ýmsum trúnaðarstörfum í félagsmálum frá unga aldri. Hann hafi meðal annars verið aðalritari Ungra vinstri grænna, ritstjóri Háskólablaðs HR og forseti Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Í dag sitji hann í stjórnum Menntaskóla Borgarfjarðar og Menningarsjóðs Borgarbyggðar, ásamt því að gegna formennsku í Atvinnuleysistryggingasjóði.
Bjarki sé í sambandi með Daníel Jakobssyni landslagsarkitekt.
Leysir Ólaf Elínarson af
Í tilkynningu er ekkert minnst á það hvern Bjarki Þór leysir af hólmi, en ráðherrar eru flestir með tvo aðstoðarmenn.
Ólafur Elínarson, fyrrverandi aðstoðarmaður, segir í samtali við Vísi að hann hafi látið af störfum sem slíkur í desember. Nú sé hann upplýsingafulltrúi hjá Carbfix. Hann sé þannig kominn aftur í loftslagsmálinu, þar sem ástríðan liggi.