Atvikið átti sér stað í 2-1 tapi gegn Manchester United í gær. Kamara haltraði þá af velli og Moussa Diaby kom inn í hans stað. Kamara fór svo í myndatökur í dag sem staðfestu krossbandsslit. Reiknað er með því að hann verði frá keppni í fimm til sex mánuði, fram yfir Evrópumótið í Þýskalandi í sumar.
Kamara er 24 ára franskur landsliðsmaður, hann hefur spilað 30 leiki í öllum keppnum fyrir Aston Villa á þessu tímabili, skorað eitt mark og gefið eina stoðsendingu. Hann er þriðji Villa maðurinn á eftir Emi Buendia og Tyrone Mings sem slítur krossband á skömmum tíma. Varnarmaðurinn Ezri Konsa er einnig meiddur á hné en mun snúa aftur í þessum mánuði.
Kamara hefur verið algjör lykilmaður fyrir Aston Villa á þessu tímabili og leyst hlutverk sitt vel sem djúpliggjandi miðjumaður. Liðið berst um sæti í Meistaradeildinni og situr sem stendur í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.