Orri var markahæsti maður vallarins með níu mörk úr jafn mörgum skotum er Sporting vann mikilvægan sigur eftir að hafa verið 17-18 undir í hálfleik.
Eftir sigurinn er Sporting með fjögur stig í öðru sæti riðils 4, tveimur stigum á eftir toppliði Füchse Berlin, en Dinamo Bucuresti rekur lestina án stiga.
Þá skoraði Teitur Örn Einarsson þrjú mörk fyrir Flensburg er liðið vann tíu marka sigur gegn Bjerinngbro/Silkeborg í riðli 3, 38-28. Flensburg trónir á toppi riðilsins með fjögur stig, jafn mörg og Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Kadetten Schaffhausen.
Að lokum máttu Íslendingaliðin Rhein-Neckar Löwen og Sävehof þola ósigra á sama tíma. Ýmir Örn Gíslason, Arnór Snær Óskarsson og félagar í Rhein-Neckar Löwen töpuðu gegn Zabrze 29-26 og Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof þurftu að sætta sig við eins marks tap gegn Nexe 29-28.