Fótbolti

Grunur um hag­ræðingu úr­slita í æfingar­leik hjá Ís­lendinga­liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er á láni hjá Lyngby Boldklub. Hann spilaði í 75 mínútur í leiknum sem um ræðir.
Andri Lucas Guðjohnsen er á láni hjá Lyngby Boldklub. Hann spilaði í 75 mínútur í leiknum sem um ræðir. Getty/Lars Ronbog

Hagræðing úrslita er því miður vandamál í íþróttakappleikjum í dag og þetta virðist vera farið að teygja sig inn í æfingarleikina líka.

Íslendingaliðið Lyngby spilaði æfingarleik á móti norska liðinu HamKam um síðustu helgi en það lítur út fyrir að þar hafi eitthvað mjög furðulegt verið í gangi í þeim fótboltaleik.

Forráðamenn HamKam tilkynntu í það minnsta leikinn inn til norska knattspyrnusambandsins þar sem þá grunaði um að dómari leiksins hafi verið að hagræða úrslitum. HamKam vann leikinn 2-1 en það voru furðulegir vítadómar undir lok leiksins sem enginn skildi í.

„Fyrst af öllu þá viljum við taka það fram að við unnum leikinn sanngjarnt. Hins vegar þá voru mjög furðulegir dómar í þessum leik sem hvorki við í HamKam né þeir hjá Lyngby botnuðu í,“ sagði Jakob Michelsen, þjálfari HamKam, í viðtali við TV 2 Sport.

Urðu að bregðast við

„Við urðum því að bregðast við til að verja íþróttina okkar. Það er okkar skylda þegar við verðum vitni að einhverjum svona skrýtnum hlutum,“ sagði Michelsen.

„Það voru dæmd þrjú víti á síðustu átta mínútum leiksins og það var erfitt að sjá af hverju. Það áttaði sig enginn á því sem var í gangi og við urðum að tilkynna þetta til norska sambandsins,“ sagði Michelsen.

Norska knattspyrnusambandið hefur látið Knattspyrnusamband Evrópu vita en UEFA tekur yfir mál sem varða keppni liða frá mismunandi þjóðum.

Lyngby skilur vel af hverjum Norðmennirnir hafi tilkynnt inn leikinn en þetta var æfingarleikur í Tyrklandi og skipuleggjendur þar sjá um að fá dómara á æfingarleikina sem þar fara fram.

Algjörlega fáránlegt

Magne Hoseth, þjálfari Lyngby, tók undir orð kollega síns.

„Þrjár af fjórum vítaspyrnum í þessum leik voru algjörlega galnar. Í þeirri síðustu sagði hann að boltinn hafi farið í hönd en það var samt út í hött,“ sagði Hoseth við Hamar Arbeiderblad.

„Fyrstu tvö vítin, þar af vítið sem HamKem, voru algjörlega fáránleg. Það hefði ekki átt að dæma neitt af þessum vítaspyrnum. Þegar þú sérð eitthvað svona þá ferðu að velta ýmsum hlutum fyrir þér,“ sagði Hoseth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×