Málið var tekið til atkvæðagreiðslu á þinginu og féllu atkvæði þannig að 176 voru fylgjandi og 76 á móti.
Hinsegin pörum verður nú einnig heimilt að ættleiða.
Forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis sagði eftir atkvæðagreiðsluna að hin nýju lög myndu útrýma alvarlegu óréttlæti. Málið hefur hins vegar klofið þjóðina og verið verið harðlega mótmælt af kirkjunni.
Andstæðingar frumvarpsins boðuðu til mótmæla í Aþenu, þar sem þeir héldu mótmælaspjöldum og krossum á lofti, lásu bænir og sungu sálma. Leiðtogi rétttrúnaðarkirkjunnar, erkibiskupinn Ieronymos II, sagði málið ógna samstöðu innan gríska samfélagsins.

Mitsotakis barðist fyrir frumvarpinu en þurfti að reiða sig á atkvæði stjórnarandstöðuþingmanna, þar sem tugir samflokksmanna hans voru á móti.
„Fólk sem hefur veirð ósýnilegt verður allt í einu sýnilegt í samfélaginu og hjá þeim munu mörg börn loksins finna sinn rétta stað,“ sagði forsætisráðherrann í þinginu áður en gengið var til atkvæðagreiðslu.
Lögin bættu líf margra Grikkja, án þess að neitt væri tekið frá öðrum.
„Þetta er söguleg stund,“ sagði Stella Belia, leiðtogi Rainbow Families, samtaka hinsegin foreldra. „Þetta er gleðidagur.“