Fótbolti

Tveir landsliðsmenn taka við þjálfun ÍBU

Siggeir Ævarsson skrifar
 Tindur Örvar Örvarsson, nýr þjálfari ÍBU
Tindur Örvar Örvarsson, nýr þjálfari ÍBU Vefsíða ÍBU

Þjálfaraskipti í 4. deild í knattspyrnu rata alla jafna ekki í fjölmiðla en fréttir af þjálfarateymi ÍBU, Íþróttabandslags Uppsveita, hafa vakið töluverða athygli enda er teymið hokið af reynslu og öllum hnútum kunnugir í landsliðsmálum.

Aðalþjálfari liðsins verður Tindur Örvar Örvarsson. Hann er 23 ára gamall og þrátt fyrir ungan aldur er hann alls ekki að stíga sín fyrstu skref í þjálfun. Í fréttatilkynningu ÍBU segir:

„Tindur er 23 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þó nokkra reynslu í þjálfun og þekkir vel til neðri-deildarboltans á Íslandi. Tindur er einn stofnenda FC Árbæjar og og stýrði hann því liði upp um deild í fyrstu tilraun tímabilið 2022 og gerði liðið svo gott mót ári seinna, 3 stigum frá því að fara aftur upp!“

Honum til aðstoðar verður Aron Þormar Lárusson en hann verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins. Þeir Tindur og Aron eru eins og áður sagði reyndir landsliðsmenn, en þeir hafa báðir verið í íslenska landsliðinu í eFótbolta frá 2020 og þykja með frambærilegri spilurum landsins í FIFA. Hvort það hjálpi þeim við að stýra liði ÍBU í sumar verður framtíðin að leiða í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×