Enski boltinn

Biðst loks af­sökunar á að hafa sagt Phillips of þungan

Sindri Sverrisson skrifar
Pep Guardiola olli Kalvin Phillips vanlíðan með ummælum sínum í fjölmiðlum og hefur nú beðist afsökunar.
Pep Guardiola olli Kalvin Phillips vanlíðan með ummælum sínum í fjölmiðlum og hefur nú beðist afsökunar. Getty/Nick Potts

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur beðist afsökunar á „ofþyngdar“-ummælum sínum í garð eins af leikmönnum félagsins, Kalvin Phillips.

Phillips var eftirsóttur leikmaður þegar City festi kaup á honum frá Leeds sumarið 2022 en hann hefur aldrei náð að stimpla sig inn í meistaraliðið, og er núna að láni hjá West Ham.

Þessi 28 ára miðjumaður hefur þó haldið áfram að vera hluti af enska landsliðinu og hann fór með liðinu á HM í Katar fyrsta veturinn sinn hjá City, en spilaði þó bara 40 mínútur á mótinu.

Eftir mótið sagði Guardiola við fjölmiðla að Phillips væri of þungur, og gæti þess vegna ekki spilað með City-liðinu. Hefur Phillips sagt að þessu hafi verið erfitt að kyngja, en hann varð fyrir miklu aðkasti stuðningsmanna annarra liða vegna þessara ummæla.

„Að mínu mati var ég ekki of þungur en stjórinn sá hlutina augljóslega öðruvísi. Ég tók þetta bara á kassann og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að komast í eins gott form og mögulegt var,“ sagði Phillips síðasta sumar.

Guardiola hefur nú loks viðurkennt að hafa gengið of langt með ummælum sínum.

„Mér þykir fyrir þessu,“ sagði Guardiola sem stýrir City gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Ein mistök á átta árum er ekki svo slæmt, en mér þykir fyrir þessu. Ég bið hann afsökunar. Fyrirgefðu. Ég er mjög leiður yfir þessu,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×