Kaup Ratcliffe hafa verið í deiglunni síðustu vikurnar en lengi vel leit út fyrir að Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani myndi kaupa öll hlutabréf Manchester United af Glazer-fjölskyldunni.
Félagið INEOS sem er í eigu Ratcliffe mun nú taka yfir allan knattspyrnutengdan rekstur United og Ratcliffe er staðráðinn í að skáka Manchester City og Liverpool sem hafa verið sterkustu liðin á Englandi síðustu árin. Hann biðlar þó til stuðningsmanna United að vera þolinmóðir.
„Við þurfum að læra af háværu nágrönnunum og hinum nágrannanum okkar. Þeir eru óvinurinn í lok dagsins,“ sagði Ratcliffe í viðtali þegar kaupin voru gengin í gegn.
„Ég vil ekkert frekar en að henda þeim báðum af stallinum. Við erum þrjú félög í norðri sem erum mjög nálægt hvert öðru. Þau hafa verið á góðum stað í nokkurn tíma og við getum lært af þeim. Þeir eru með gott skipulag, gott fólk innan sinna raða og þar ríkir gott og kappsfullt andrúmsloft,“ sagði Ratcliffe og bætti við:
„Ég ber mikla virðingu fyrir þeim en þeir eru samt óvinurinn.“
Hann segir þó að breytingarnar hjá Manchester United muni ekki gerast á einni nóttu. Það muni taka hann tvö til þrjú tímabil að koma félaginu á þann stað sem hann vill sjá það á.
„Það þarf að biðja stuðningsmenn um þolinmæði. Ég veit að heimurinn í dag vill fá árangur strax en það virkar ekki þannig í fótboltanum. Þetta er ekki tíu ára plan því þá myndu stuðninsmennirnir missa þolinmæðina. En þetta er svo sannarlega þriggja ára plan að ná þangað.“