Fótbolti

Hleypa Netflix-fólki Vinícius Júnior ekki inn á leik­vanginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Augun verða á Vinícius Júnior og eyrun hlera stúkuna þegar hann mætir aftur til Valencia.
Augun verða á Vinícius Júnior og eyrun hlera stúkuna þegar hann mætir aftur til Valencia. Getty/David S.Bustamante

Fólkið sem eru að gera heimildarmynd um brasilíska fótboltamanninn Vinícius Júnior verður meinaður aðgangur að leik Valencia og Real Madrid um næstu helgi.

Þetta er stórmerkilegur leikur fyrir Vinícius Júnior enda er þetta fyrsti leikur hans á Mestalla leikvanginum síðan hann varð fyrir kynþáttarníði á leikvanginum í fyrra.

Vinícius fékk að líta rauða spjaldið í 1-0 tapi Real Madrid á móti Valencia á vellinum 21. maí en hafði skömmu áður verið fórnarlamb kynþáttaníðs.

Þrennt var ákært fyrir þessa ósmekklegu hegðun og gaf Vinícius Júnior sinn vitnisburð í málinu.

Brasilískt kvikmyndafólk hefur verið að vinna heimildarmynd um Vinícius fyrir Netflix á síðustu mánuðum og sótti um fjölmiðlapassa á leikinn. Valencia hafnaði hins vegar þeirri beiðni.

„Þetta er ákvörðun sem félagið tekur og þetta var ekki auðveld ákvörðun,“ sagði Javier Tebas, forseti spænsku deildarinnar.

„Þau tóku ákvörðun að hleypa ekki kvikmyndagerðafólkinu inn á völlinn. Ég verð að virða það. Þau vita betur hvað er í gangi dags daglega hjá Valencia. Það væri ansi djarft af okkur, lengst í burtu, að tjá okkur eitthvað um það,“ sagði Tebas.

„Ég tel að þetta sé fyrirbyggjandi aðgerð. Ég sjálfur mun hins vegar taka þátt í heimildamyndinni og veita þeim viðtal,“ sagði Tebas.

ESPN fjallar um málið og samkvæmt þeirra heimildum þá fékk sjónvarpsfólkið enga skýringu af hverju þau fá ekki aðgang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×