Málið snýst um tvo unga leikmenn sem báðir eru á mála hjá Chelsea.
Shumaira Mheuka, 16 ára gamall framherji, kom til Chelsea í júlí 2022. Dómnefnd úrskurðaði verðmæti leikmannsins vera eina milljón punda, sem Chelsea þarf núna að greiða til Brighton, en sú upphæð gæti hækkað í rúmlega fjórar milljónir eftir árangri leikmannsins.
Auk þess þarf Chelsea að greiða Brighton bætur upp á rúmlega þrjár milljónir punda fyrir Zak Sturge, 19 ára gamlan vinstri bakvörð sem Chelsea stal af Brighton.
Þó þetta séu aðeins litlir dropar í risastóra hafið sem peningaeyðsla Chelsea er má félagið ekki við miklum kvöðum vegna FFP regluverksins sem leikur flestöll lið í ensku úrvalsdeildinni grátt.
Todd Boehly hefur eytt himinháum fjárhæðum frá því hann keypti Chelsea, rúmum milljarði punda bara í leikmenn. Þar af hafa 225 milljónir farið beint í leikmenn Brighton – þá Moises Caicedo, Robert Sanchez og Marc Cucurella. Auk þess borgaði Boehly fyrir þjálfaraskipti Graham Potter, Bruno Saltor og Billy Reid sem allir komu frá Brighton en var sagt upp eftir minna en sjö mánuði í starfi.