Íslenski boltinn

Breytt hugar­far markakóngsins: „Fannst ég ná að tengjast sjálfum mér meira“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Baldur Sigurðsson rakti garnirnar úr Emil Atlasyni, markakóngi Bestu deildarinnar 2023.
Baldur Sigurðsson rakti garnirnar úr Emil Atlasyni, markakóngi Bestu deildarinnar 2023. stöð 2 sport

Eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla hefur Emil Atlason skorað grimmt fyrir Stjörnuna undanfarin tvö ár. Baldur Sigurðsson grennlaðist fyrir um hvað hefði breyst hjá framherjanum í fyrsta þætti annarrar þáttaraðar Lengsta undirbúningstímabils í heimi.

Emil varð markakóngur Bestu deildarinnar á síðasta tímabili með sautján mörk. Tímabilið þar á undan skoraði hann ellefu mörk og undanfarin tvö tímabil hefur hann því gert samtals 28 mörk í Bestu deildinni. Fyrir það hafði Emil skorað 21 mark í efstu deild.

Baldri lék forvitni á að vita hvað varð til þess að Emil byrjaði að skora svona mikið og hann hefur gert undanfarin tvö tímabil. Emil segir að margt hafi breyst þegar hann varð pabbi.

„Þá hugsar maður ekki eins mikið um svona. Stundum á maður til að ofhugsa hluti. En þegar maður er í kringum fjölskylduna hugsar maður: Þetta er það sem skiptir máli. Allt annað er ekki neitt,“ sagði Emil. 

„Síðan fann ég sjálfstraustið mitt aftur og eftir það fór maður á flug. Mér fannst ég ná að tengjast sjálfum mér meira. Vita hver ég er og hvað ég get.“

Klippa: Lengsta undirbúningstímabil í heimi - Emil Atlason

Emil segir að Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eigi stóran þátt í velgengni sinni.

„Hann er þannig þjálfari, lætur mann hugsa og sjá meira en aðrir sem maður hefur verið með,“ sagði Emil.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá innslagið úr Lengsta undirbúningstímabili í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×