Heimildin greindi frá því á þriðjudag að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefði fengið alls 21,5 milljónir króna í laun fyrir stjórnarformennsku Kviku banka árið 2023. Það gera um það bil 1,8 milljónir króna á mánuði. Mánaðarlaun hans hjá SI námu að meðaltali 4,1 milljón árið 2022 samkvæmt hátekjulista miðilsins.
Í ársskýrslu Arion banka kemur fram að Brynjólfur Bjarnason stjórnarformaður bankans hefði fengið 26,5 milljónir í árslaun frá bankanum. Að meðaltali eru það um 2,2 milljónir á mánuði. Brynjólfur situr að auki í stjórn fjárfestingafélagsins Marinvest og álframleiðslufélagsins ISAL hf. – Rio Tinto.
Helga Björk Eiríksdóttir formaður bankaráðs Landsbankans fékk samkvæmt ársskýrslu samtals 19,9 milljónir í laun í fyrir formannssetuna í fyrra, eða um 1,6 milljón á mánuði. Hún starfar á sviði fasteignaþróunar og ráðgjafar.
Hvað Íslandsbanka varðar var kjörin inn ný stjórn á hluthafafundi þann 28. júlí í fyrra eftir að Finnur Árnason stjórnarformaður, Guðrún Þorgeirsdóttir varaformaður og Ari Daníelsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu eftir Íslandsbankamálið svokallaða.
Á fundinum var Linda Jónsdóttir kjörin stjórnarformaður Íslandsbanka. Samkvæmt ársskýrslu fékk Linda 5,7 milljónir króna það árið fyrir stjórnarformennskuna. Þá má áætla að hún hafi fengið um 1,1 milljón á mánuði þá rúmu fimm mánuði sem hún gegndi stöðunni. Linda var samkvæmt hátekjulista Heimildarinnar með tæplega sex milljónir króna í laun á mánuði árið 2022 þegar hún starfaði sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Marel.