Tvær fjölskyldur úr Þorlákshöfn hafa rekið verslunin á Borg síðustu fjögur ár er nú er komið að leiðarlokum því versluninni var lokað fyrir fullt og allt klukkan sex nú síðdegis.
En var það erfið ákvörðun að taka að loka versluninni?
„Já, já, sérstaklega í ljósi þess að við erum búin að leggja í ómælda vinnu í þetta síðan í haust að reyna að fara í samningaviðræður við alla byrgja um nauðasamninga og svona, þannig að þetta er búið að vera mjög erfitt,” segir Sigurjón Ragnarsson, núna fyrrverandi verslunarmaður á Borg.
Hvernig myndir þú lýsa þessari verslun eins og hún var?
„Þetta var bara svona gamli kaupmaðurinn á horninu, allt til og ef það var ekki til þá eins og ég segi, þá þurftir þú ekki á því að halda,” bætir Sigurjón viðl.
„Það er svolítill söknuður í þessu því það er mikið af góðu fólki, sem maður á eftir að sakna mikið. Þetta var erfið ákvörðun, þetta gerðist svolítið hratt, það var kannski ágætt,” segir Björg Ragnarsdóttir, núna fyrrverandi verslunarmaður á Borg.

Þúsundir sumarbústaða eru í Grímsnes og Grafningshreppi og þar í kring og því mikill söknuður hjá sumarbústaðaeigendum og ekki síður heimamönnum á Borg að nú sé búið að loka versluninni.
„Jú, ég er mjög leið yfir þessu,” segir Hjördís Davíðsdóttir sumarbústaðaeigandi.
„Það á eftir að sannast það að engin veit hvað átt hefur fyrr en mist hefur. Þau hafa þjónustað okkur mjög vel og ef eitthvað er ekki til þá er því reddað, þannig á þetta að vera, við sjáum mikið eftir þeim,” segir Sveinn Guðmundur Guðmundsson, sumarbústaðaeigandi.
En hvað gera bændur núna þegar það er búið að loka?
„Þeir bora í nefið á sér, það er ekkert annað að gera. Þetta verður bara mjög slæmt, menn eiga eftir að finna fyrir þessu,” segir Sveinn Guðmundur.

Og að lokum þetta frá verslunareigendunum.
„Takk fyrir okkur.”