Postecoglou er með Tottenham í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta og liðið er fimm stigum á eftir Aston Villa en með leik til góða. Liðin mætast í afar mikilvægum leik á morgun.
Fjórða sætið skilar farmiða í nýja útgáfu Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð en góðar líkur eru þó einnig á því að fimmta sætið skili farmiða þangað. Tottenham er með sex stiga forskot á Manchester United, og leik til góða.
En að ná sæti í Meistaradeild Evrópu er ekki nóg til að gleðja Postecoglou mikið. „Þetta er ekki gullmiðinn frá Willy Wonka. Þetta gefur þér bara eitt ár í keppninni,“ sagði stjórinn og vísaði í söguna um Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna, þar sem gullmiðar gáfu börnum ferð í súkkulaðiverksmiðjuna.
„Ef að maður nær ekki að þroskast af þessu þá er þetta tilgangslaust. Við erum ekki í þessu til að fá að taka þátt heldur til þess að vinna eitthvað,“ sagði Postecoglou.
Tottenham komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2019 en tapaði þar fyrir Liverpool. Síðan þá hefur liðið tvisvar komist í keppnina en í bæði skiptin mistekist að komast í gegnum 16-liða úrslitin. Samt er Postecoglou ekki að æsa sig yfir möguleikanum á að komast í keppnina.
„Ég sé ekki tilgang í því að stefna á eitthvað annað en að vera númer eitt.“