Enski boltinn

Frank: Havertz átti að fá rautt spjald áður en hann skoraði sigur­markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kai Havertz fagnar sigurmarki sínu í gær en það kom Arsenal í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Kai Havertz fagnar sigurmarki sínu í gær en það kom Arsenal í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar. Getty/ David Price

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, var mjög ósáttur með það að Kai Havertz hafi verið enn inn á vellinum þegar sá þýski tryggði Arsenal 2-1 sigur á Brentford í gær og þar með toppsætið í ensku úrvalsdeildinni.

Havertz skallaði boltann í markið á 86. mínútu en Aaron Ramsdale hafði gefið Bentford jöfnunarmark á silfurfati í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Havertz hafði áður fengið gult spjald fyrir olnbogaskot á Kristoffer Ajer og fór svo mjög auðveldlega niður í teignum á 66. mínútu. Varsjáin skoðaði atvikið en ekkert víti var dæmt.

Thomas Frank var harður á því að þarna hafi Havertz átt að fá sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap.

„Þetta er augljós dýfa hjá Havertz,“ sagði Thomas Frank.

„Ég vildi bara að þeir myndu viðurkenna það. Ég veit ekki hvort hann hafi gert það en það er alltaf að gerast. Í herri viku reynir einhver þetta. Ég veit að það gerist,“ sagði Frank.

„Þetta hefði auðvitað átt að vera hans annað gula spjald og þar með rautt. Þá hefði hann ekki getað skorað sigurmarkið og við hefðum kannski náð einhverju forskoti sem hefði getað skilað okkur sigri í leiknum,“ sagði Frank.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×