„Næsta skref hjá mér er að funda með bankasýslunni og það geri ég í dag. Við sjáum bara hvað kemur út úr því,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við fréttastofu. Rætt var við hana um málið að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Bankasýslan fer með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum en eins og fjallað hefur verið um undanfarna daga segist Bankasýslan ekki hafa verið upplýst nægilega vel um fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM tryggingum. Ríkið á tæplega 100 prósenta hlut í bankanum.
Innt eftir því hvort henni þyki tilefni til þess að efna til rannsóknar á símtali Tryggva Pálssonar stjórnarformanns Bankasýslunnar og Helgu Bjarkar Eiríksdóttur formanns bankaráðs Landsbankans í desember ítrekar Þórdís að næsta skref hennar sé að funda með Bankasýslunni. Deildar meiningar eru um hvað rætt var í símtalinu, sem fréttastofa hefur rakið í fyrri fréttum:
„Þetta mál hefur auðvitað verið rakið bæði af hálfu Bankasýslunnar í ákveðnum viðbrögðum og svo í svörum bankaráðsins. Ég ætla ekki að fara að túlka frekar það sem bankaráð segir annars vegar og Bankasýslan hins vegar. Mitt hlutverk er að eiga samtal við bankasýsluna og það geri ég í dag,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hvað finnst þér um vinnubrögð Bankasýslunnar í þessu máli?
„Það er margt í þessu máli sem við þurfum að fara yfir og spyrja okkur hvort hefði verið hægt að gera betur og með hvaða hætti. Þetta er það fyrirkomulag sem við höfum, og við höfum talað um að gera breytingar á því. Mér finnst mikilvægt að missa ekki sjónar á þessu grundvallaratriði, sem er bara: Hvað segir eigendastefnan okkar og hvernig ætlum við að halda á þessu máli áfram og þessum eignarhlut?“ segir Þórdís.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, boðaði það fyrir tveimur árum að leggja niður Bankasýsluna. Til stóð að leggja frumvarp þess efnis fyrir þingið í janúar en ekkert hefur af því heyrst. Þórdís segir málið í vinnslu.
„Þetta fyrirkomulag sem við erum með núna, það hefur verið sagt töluvert fyrir mína tíð að það eigi að gera breytingar á því. Það er í vinnslu.“