Tap Íslands gegn Úkraínu þýðir að íslenska karlalandsliðið missir af sæti á EM sem fram fer í Þýskalandi í sumar og vonbrigði Hákons leyndu sér ekki í leikslok.
„Þetta er ógeðslega svekkjandi. Sérstaklega fyrst við vorum komnir 1-0 yfir í hálfleik og við þurfum bara að klára þessar 45 mínútur. Þetta er ógeðslega svekkjandi,“ sagði Hákon einfaldlega.
Íslenska liðið hafði nokkuð góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og fór með forystu inn í hálfleikshléið. Í síðari hálfleik lagðist liðið þó aftar á völlinn sem bauð Úkraínumönnum upp í dans.
„Ég veit ekki hvort við droppum of mikið og verðum passívir og ætlum bara að reyna að vernda þetta. Það er erfitt að tala um leikinn strax eftir hann. Það er örugglega hellingur af hlutum sem við hefðum getað gert betur. Við vorum svo ógeðslega nálægt þessu og þetta er bara svekkjandi.“
„Þetta hefði alveg getað dottið með okkur. Við fengum nokkrar hornspyrnur og einhver færi þarna í endan, en það vantaði þetta seinasta greinilega,“ sagði Hákon að lokum.