Tveir menn stálu peningatöskum með fé úr spilakössum úr bíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í fyrradag. Ránið er talið þaulskipulagt og voru þjófarnir innan við mínútu að athafna sig á vettvangi. Lögregla telur að þeir hafi haft á brott með sér 20 til 30 milljónir króna en nákvæm upphæð hefur þó ekki fengist staðfest hjá Happdrætti Háskólans, sem á féð.
Heimir Ríkharðsson lögreglufulltrúi segir rannsókn málsins í fullum gangi. Lögregla hafi fengið ábendingar síðan í gær og vinni út frá þeim. Þjófarnir gangi þó enn lausir og ekki er heldur vitað um féð. Ekki sé vitað hvort þjófarnir hafi mögulega komist úr landi. Þá vill Heimir ekki tjá sig um það hvort hann sé bjartsýnn á að þjófarnir náist.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir málið afar óvenjulegt. Rán á peningaflutningabílum hafi ekki tíðkast hér á landi.
„Annað líka sem er óvenjulegt við þetta er þetta harkalega handbragð á þessu öllu saman. En það má segja líka að það eru engir líf eða limir í hættu en þarna eru stórir fjármunir í húfi og þar hafa viðkomandi talið að þarna væri eftir miklu að slægjast og einhver undirbúningur hafi verið þar að baki,“ segir Helgi.
„Ef við tökum þessi rán hjá okkur á Íslandi, þá fengum við í upphafi aldarinnar smásölurán og jafnvel bankarán en þar voru lægri upphæðir í húfi. En þar var líka þessi líkamshætta í gangi, sem virðist ekki hafa verið að þessu sinni.“
Eins og í málunum sem upp komu um aldamótin sé mikilvægt að þjófarnir finnist - svo aðrir horfi ekki til þess að fara að fordæmi þeirra.
„Það skiptir mjög miklu máli að upplýsa þessi mál, að koma þeim skilaboðum á framfæri að þetta borgi sig ekki. Og varðandi verðmætaflutningana þá finnst mér líklegt að menn muni að einhverju leyti fara yfir verklagið hjá sér en þetta hafa samt sem áður verið flutningar sem hafa verið áfallalausir þannig að það er ekki endilega víst að það þurfi að breyta miklu til.“