En eftir fimm ára rússibanareið varð fyrirtækið gjaldþrota. En Guðmundur ákvað að gefast ekki upp og byrjaði að vinna í sjálfum sér og komast á góðan stað í lífinu. Og í dag rekur hann ásamt fleirum alveg einstakt fyrirtæki Nebraska sem er bæði fataverslun og veitingastaður á sama stað og hefur það verið gríðarlega vinsælt. Vala Matt ræddi við Guðmund í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.
„Ég prófaði aftur og byrjaði að gera peysur til að sjá hvort fólk væri spennt fyrir þessu, maður veit ekkert hvernig hlutirnir fara í fólk, og það gekk vel og þá ákvað ég að fá mér vinnustofu. Stofa á Lækjartorgi sem var gamla tannlæknastofan hans Tóta tönn. Það gekk mjög vel en það var mjög lítið í sniðum og gekk út á það að ég væri svolítið einn,“ segir Guðmundur og heldur áfram.
„Ég er stemningsmaður og það var farið að kitla að fara gera eitthvað aftur og flækja líf mitt aðeins meira. Þá kom Benni Andra vinur minn til mín og langaði að fara gera eitthvað og það þróaðist út í Nebraska. Ég hef lengi verið með þessa pælingu í maganum að vera með fataverslun og veitingastað,“ segir Guðmundur sem var farinn að hugsa út í það á sínum tíma þegar hann rak JÖR.
Hér að neðan má sjá brot úr innslagi gærkvöldsins en áskrifendur geta séð það í heild sinni á Stöð 2+ eða í frelsiskerfi Stöðvar 2.