Handbolti

Taka víta­kast fjórum dögum eftir að leik lauk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikurinn er víst ekki búinn, jafnvel þótt dómarinn flauti af.
Leikurinn er víst ekki búinn, jafnvel þótt dómarinn flauti af.

Afar áhugavert mál er komið upp í sænska handboltanum. Íslendingalið Karlskrona gæti tapað leik sem lauk fyrir fjórum dögum.

Karlskrona vann Västerås, 25-24, í leik í umspili um sæti í sænsku úrvalsdeildinni á föstudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til að vinna einvígið.

Undir blálok leiksins fékk Västerås vítakast. Dómarar leiksins komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að leiktíminn hafi verið runninn út, vítið var ekki tekið og Västerås tapaði leiknum.

Nú, fjórum dögum seinna, er hins vegar búið að úrskurða að leiktíminn hafi ekkert verið búinn. Västerås áfrýjaði og sænska handknattleikssambandið tók kvörtun liðsins til greina.

Það þarf því að taka vítakastið og ef Västerås skorar úr því verður framlengt. Leikið verður til þrautar en tvær framlengingar og vítakast gæti þurft til að knýja fram úrslit.

Vítakastið verður tekið annað kvöld og leikurinn í kjölfarið kláraður ef Västerås skorar. Liðin eiga svo að mætast aftur á miðvikudaginn.

Ólafur Guðmundsson, Dagur Sverrir Kristjánsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson leika með Karlskrona auk þýska markvarðarins Phils Döhler sem lék um tíma með FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×