Í umfjöllun New York Times um málið segir að stuldurinn hafi verið hluti af ráðabruggi til þess að veikja stöðu Biden í forsetakosningunum 2020, en hann átti eftir að bera sigur úr býtum gegn sitjandi forseta Donald Trump.
Stuldurinn átti sér stað fyrir fjórum árum síðan í borginni Delray Beach í Flórídaríki. Það var á heimili vinar Harris, en saksóknari sagði að Ashley Biden hefði geymt dagbókina þar í þeirri trú að hún væri örugg.
Síðan seldi Harris bókina til Project Veritas, sem er lýst sem öfgahægri fylkingu, fyrir háar fjárhæðir. Hún játaði sök fyrir dómi og sagðist hafa fengið tuttugu þúsund Bandaríkjadali greidda af fjörutíu þúsundum sem henni var lofað.

„Ég er ekki hafin yfir lögin,“ sagði Harris fyrir dómi. Hún bað Ashley Biden afsökunar á því að hafa gert æsku og einkalíf hennar opinbert.
Dómarinn í málinu sagði gjörðir Harris „fyrirlitlegar og alvarlegar“. Áður en hann kvað upp dóm sinn tók hann fram að Harris hefði gert tilraun til að selja dagbókina til kosningateymis Trumps, en án árangurs.
Jafnframt gagnrýndi dómarinn framferði Harris fyrir dómi, með því að hafa gert ítrekaðar tilraunir til að láta málið dragast á langinn.
Líkt og áður segir hlaut Harris mánaðar fangelsisdóm, en þar að auki hlýtur hún þriggja ára skilorðsbundin dóm, og þarf að sitja í stofufangelsi í þrjá mánuði. Einnig er henni gert að endurgreiða peningana sem hún fékk greidda fyrir þýfið.