Klopp hefur lýst því yfir að hann yfirgefi Liverpool í sumar og allt útlit er fyrir að það geri hann án þess að bæta Evrópudeildarmeistaratitli við þá titla sem liðið hefur safnað undir hans stjórn.
Jamie Carragher, sérfræðingur Sky og fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir að liðið eigi að gefast upp á Evrópudeildinni og einbeita sér að kapphlaupinu um Englandsmeistaratitilinn sem er hnífjafnt og æsispennandi.
„Þetta eru hræðileg úrslit og frammistaða hjá Liverpool,“ skrifaði Carragher á Twitter eftir tapið í gær.
„Eina huggunin er sú að eftir svona stórt tap ætti Jürgen að fara alla leið í að nota varaliðið í seinni leiknum og leggja allt í deildina,“ skrifaði Carragher.
Carabao Cup: Champions
— Mail Sport (@MailSport) April 12, 2024
Premier League: 2nd
Europa League: 3-0 down on aggregate vs Atalanta
FA Cup: Quarter Final
How many trophies will Liverpool win in Jurgen Klopp's final season? pic.twitter.com/DM6P76klMB
Annar fyrrverandi varnarmaður Liverpool, Stephen Warnock, lýsti frammistöðu Liverpool sem þeirri verstu frá því að Klopp tók við liðinu fyrir níu árum.
„Þetta var að öllum líkindum það versta sem ég hef séð hjá þeim undir stjórn Klopp,“ sagði Warnock við BBC og bætti við: „Liverpool-liðið var slakt. Fór illa með tækifærin þegar það var með boltann og gerði svo mörg mistök um allan völl.“
Klopp leyndi því ekki sjálfur að frammistaðan hefði verið slök hjá Liverpool í gær.
„Þetta var léleg frammistaða og þannig er það bara. Margar frammistöður í kvöld voru svona „úps, vá, ég vissi ekki að þeir gætu spilað svona“. Margir leikmenn litu oft út eins og þeir væru einir. Þetta var mjög slæmt,“ sagði Klopp.