Upp­gjör og við­töl: ÍA-FH 1-2 | FH-ingar sóttu sigur á Skagann

Dagur Lárusson skrifar
FH vann góðan sigur á Akranesi.
FH vann góðan sigur á Akranesi. Vísir/Hulda Margrét

Eftir tvo stórsigra í röð tapaði ÍA fyrir FH í Akraneshöllinni, 1-2. Logi Hrafn Róbertsson skoraði sigurmark FH-inga eftir að Kjartan Kári Halldórsson hafði skorað fyrra markið úr aukaspyrnu lengst utan af velli. Er þetta annað langskotið sem Kjartan Kári skorar úr á leiktíðinni. Viktor Jónsson skoraði mark Skagamanna.

FH vann sterkan útisigur á ÍA í Bestu deild karla í dag er liðin mættust en fyrir leik voru bæði lið með sex stig eftir þrjár umferðir.

Fyrsta mark leiksins kom á 13. mínútu þegar Kjartan Kári Halldórsson lét vaða úr aukaspyrnu langt utan af velli og boltinn söng í netinu.

FH-ingar sköpuðu sér fleiri færi og voru heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum en ÍA náði þó að jafna áður en hálfleikurinn var allur og var það Viktor Jónsson sem skoraði á 42. mínútu. Hans fimmta mark í sumar.

Skagamenn voru öflugra liðið fyrstu mínútur seinni hálfleiks en það voru hins vegar FH-ingar sem skoruðu næsta mark og var Logi Hrafn sem gerði það eftir að boltinn barst til hans utan teigs eftir mikinn darraðardans og þaðan þrumaði hann honum í markið. Staðan orðin 1-2.

Atvik leiksins

Mark Loga Hrafns verður að vera atvik leiksins þar sem það slökkti svolítið í neistanum sem var í Skagamönnum í byrjun seinni hálfleiks

Stjörnur og skúrkar

Ég myndi segja að Úlfur Ágúst hafi verið stjarnan í leiknum. Var að spila sinn fyrsta leik eftir að hafa komið heim og hann var allt í öllu í sóknarleik FH. 

Úlfur Ágúst kom inn með látum.Vísir/Diego

Hvað skúrka varðar þá er erfitt að velja einhvern einn leikmann en sóknarmenn ÍA naga sig ef til vill í handarbökin eftir að hafa klúðrar nokkrum dauðafærum undir lok leiks.

Dómararnir

Helgi Mikael var ekkert að spara spjöldin í dag og stuðningsmenn beggja liða voru að láta hann heyra það allan leikinn. Þetta var hins vegar mikill baráttuleikur og í flestum tilfellum þar sem hann gaf gula spjaldið átti það hreinlega rétt á sér.

Helgi Mikael hafði í nægu að snúast.Vísir/Hulda Margrét

Stemningin og umgjörð

Stemningin var upp á 10 í Akraneshöllinni. Þó svo að allir hefðu ef til vill viljað horfa á þennan leik úti í sólinni þá var það ekkert að hafa áhrif á stemninguna.

„Lykilinn að þessu var að mæta þeim í baráttunni“

Heimir var sáttur.Vísir/Hulda Margrét

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var að vonum ánægður með sigur síns liðs gegn ÍA í dag en hann segir að lykillinn að sigrinum hafi verið að mæta Skagamönnum í baráttunni.

„Að mæta þeim í baráttunni, það var lykillinn að þessum sigri. Ef þú ætlar að vinna hérna á Akranesi þá þarftu að vera með grunnatriðin á hreinu og við vorum með þau á hreinu í dag,“ byrjaði Heimir að segja.

„Erfitt að koma hérna og sérstaklega núna þar sem Skagamenn eru með gott lið og hafa byrjað mótið vel. Við vorum frábærir í fyrri hálfleiknum, spiluðum gríðarlega vel og náðum að skora og hefðum getað lokað þessum leik í fyrri hálfleik og við vissum að Skaginn myndi alltaf koma til baka,“ hélt Heimir áfram að segja.

Heimir talaði síðan aðeins um Úlf sem spilaði frábærlega í sínum fyrsta leik í sumar.

„Úlfur er bara eins menn sáu í dag. Hann er sterkur og mjög góður að fá boltann í fætur og getur því haldið boltanum fyrir okkur virkilega vel. Hann getur tekið menn á og er alltaf hættulegur,“ endaði Heimir Guðjónsson að segja.

„Ótrúlega svekkjandi tap“

Jón Þór á hliðarlínunni.Vísir/Diego

„Það sem ég er að hugsa um núna eftir leik er að þetta er ótrúlega svekkjandi tap,“ byrjaði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, að segja eftir leik.

„Við hefðum getað nýtt okkar augnablik betur, það er það sem FH-ingarnir gerðu vel og þar réðust úrslitin í þessum leik,“ hélt Jón Þór áfram að segja.

„Mér fannst við byrja leikinn ekki nægilega vel, okkur skorti svolítið gæði í sendingum. Við vorum kannski að velja réttar sendingar en þær voru ekki nægilega góðar. Mér fannst við tapa of mikið af boltum fyrsta hálftímann í leiknum og það gaf þeim færi á skyndisóknum aftur og aftur og í raun aðeins of oft.“

„Eftir það náum við að jafna og erum mikið sterkari í byrjun seinni hálfleiks en þeir ná samt að skora. En eftir markið vorum við að stýra ferðinni en náðum því miður ekki að jafna metin.“

„Það jákvæða sem ég tek út úr þessu eru að við náðu að jafna metin í stöðunni 1-1 og við gáfumst aldrei upp í leiknum,“ endaði Jón Þór að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira