Steina Árnadóttir, 62 ára gamall hjúkrunarfræðingur, var sýknuð í héraði af ákæru um að hafa valdið dauða konu með geðklofa á sextugsaldri á geðdeild Landspítalans 16. ágúst árið 2021. Hún var ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi sannað að hún hefði valdið dauða sjúklingsins með því að hella næringardrykk upp í hann þar til hann kafnaði. Steina var sýknuð þar sem ásetningur hennar til manndráps þótti ekki sannaður.
Gerði hvorki varakröfu um gáleysi né líkamsárás
Í ákæru voru engar varakröfur gerðar um heimfærslu til refsiákvæða. Í úrskurði Landsréttar, sem kveðinn var upp í dag, segir að Steina hafi verið sýknuð af ákæru um manndráp samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga, sem og öðrum þeim brotum sem henni voru gefin að sök í ákæru.
Í forsendum héraðsdóms hafi verið tekið fram að í málinu hefði ekki verið ákært fyrir brot gegn 215. grein almennra hegningarlaga, sem varðar manndráp af gáleysi, og hefði það því ekki verið flutt með tilliti til þess.
Í greinargerð ákæruvaldsins til Landsréttar hafi komið fram að færi svo að rétturinn teldi ósannað að ásetningur Steinu hefði staðið til að svipta sjúklinginn lífi væri byggt á því að líta bæri á háttsemina sem stórfellda líkamsárás sem bani hefði hlotist af og yrði hún samkvæmt því heimfærð til 2. málsgreinar 218. greinr almennra hegningarlaga, en yrði ekki á það fallist teldi ákæruvaldið í það minnsta liggja fyrir að Steina hefði svipt sjúklinginn lífi svo að varðaði hana refsingu samkvæmt 215. grein laganna.
Héraðsdómi hafi borið að veita flytjendum færi á að flytja málið eins og um gáleysi væri að ræða
Í úrskurði Landsréttar kom fram að ef héraðsdómur teldi vafa leika á því að Steina hefði haft ásetning til að svipta sjúklinginn lífi, svo að fullnægt væri huglægum refsiskilyrðum 211. greinar almennra hegningarlaga, hefði dóminum borið að gefa sakflytjendum færi á að flytja málið út frá því hvort heimfæra mætti ætlað brot hennar undir 2. mgr. 218. gr. laganna, ellegar 215. gr. þeirra.
Það hefði ekki verið gert og yrði ekki leyst úr því fyrir Landsrétti hvort málið yrði dæmt eftir öðrum refsiákvæðum en í ákæru greindi, enda myndi slík úrlausn ekki fela í sér endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms.
Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur án kröfu og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar á ný og fella síðan á það efnisdóm