Wenger gerði Arsenal þrívegis að enskum meisturum en liðið hefur ekki unnið titilinn í tuttugu ár. Arteta freistar þess að breyta því en Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á undan Manchester City sem á leik til góða.
Arteta lék undir stjórn Wengers hjá Arsenal og hefur leitað til Frakkans að undanförnu.
„Ég hef talað við hann nokkrum sinnum. Þetta sneri að því hvernig þeir unnu þetta og lokasprettinn,“ sagði Arteta.
„Hann talaði um þetta þegar ég var leikmaður. Þetta var alltaf í minninu. Á þessu stigi tímabilsins snýst þetta um að finna leiðir til að vinna leiki. Þegar þú horfir á hvernig þeir unnu titlana sérðu að þeir gerðu það á mismunandi hátt. Hvernig þeir unnu nauma sigra. Hann talaði alltaf um hversu lítið skilur á milli og hverjir stíga upp þegar á þarf að halda.“
Arsenal mætir Tottenham í Norður-Lundúnaslagnum á morgun. Skytturnar hafa spilað fjóra leiki undanfarnar tvær vikur á meðan Spurs spilaði síðast 13. apríl.