Salah byrjaði á bekknum þegar Liverpool sótti West Ham heim í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Leikar fóru 2-2.
Klopp gerði þrefalda skiptingu eftir að Michail Antonio jafnaði í 2-2. Hann setti Salah, Darwin Núnez og Joe Gomez inn á.
Þegar Salah beið eftir að fá að fara inn á sagði Klopp eitthvað við hann og Egyptinn svaraði stjóranum sínum og virkaði frekar pirraður. Núnez róaði hann þó niður á endanum.
Salah tókst ekki að setja mark sitt á leikinn og Liverpool fór með eitt stig frá Lundúnaleikvanginum.
Liðið er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 75 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal. Liverpool hefur leikið einum leik meira en Arsenal og tveimur leikjum meira en Manchester City sem er í 2. sæti.
Salah hefur ekki fundið fjölina sína að undanförnu og verið talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína. Hann hefur ekki skorað nema úr vítaspyrnum í síðustu átta leikjum Liverpool.