Enski boltinn

Dómarinn verður með mynda­vél á höfðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes sýnir dómaranum Jarred Gillett hvar myndavélin verður staðsett.
Bruno Fernandes sýnir dómaranum Jarred Gillett hvar myndavélin verður staðsett. Getty/Catherine Ivill

Í fyrsta sinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta verður dómarinn með myndavél á sér í kvöld, þegar Crystal Palace og Manchester United mætast.

Dómarinn Jarred Gillett verður með myndavélina fasta á höfðinu en hún verður þó ekki notuð í beinu útsendinguna frá leiknum í kvöld.

Þess í stað verður myndefnið notað í sérstakan þátt sem sýndur verður síðar, þar sem veita á innsýn inn í það hvernig er að dæma í ensku úrvalsdeildinni.

Hið sama var gert í Þýskalandi í febrúar þegar dómarinn Daniel Schlager var með myndavél og hljóðnema á sér í 2-2 jafntefli Frankfurt og Wolfsburg. Efnið var svo sýnt í þætti sem þýska deildin lét gera.

Síðasta sumar var enski úrvalsdeildardómarinn Rob Jones með myndavél á sér í leik á milli Chelsea og Brighton í Philadelphia í Bandaríkjunum. Enska knattspyrnusambandið hefur einnig gert tilraunir með það í leikjum hjá áhugamönnum að dómarinn sé með myndavél á sér, í von um að draga úr því níði sem dómarar þar verða fyrir.

Leikur Palace og United í kvöld hefur litla þýðingu fyrir heimamenn sem eru í 14. sæti deildarinnar og hafa að litlu að stefna. United er hins vegar í baráttu um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð, sem liðið gæti þó einnig fengið með sigri gegn Manchester City í bikarúrslitaleiknum 25. maí. United er í 8. sæti með 54 stig en kæmist með sigri í kvöld upp fyrir Chelsea og Newcastle, í 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×