Joselu skoraði bæði mörk Real í gærkvöld í blálokin, eftir að hafa komið inn á sem varamaður, í 2-1 sigri sem skilaði liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.
Síðast þegar að Real komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar mætti Joselu á leikinn, í París 2022, en þá sem stuðningsmaður Real sem vann Liverpool 1-0.
Tveimur árum síðar reyndist hann óvænta hetjan sem kom Real aftur í úrslitaleikinn, við Dortmund 1. júní.
Here’s Joselu supporting Real Madrid in Paris, Champions League final 2022.
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) May 8, 2024
Two years later, he’s sending Real Madrid to Champions League final after scoring a brace just before extra time.
❗️ He joined Real Madrid on loan from 2nd division Espanyol.
Football. 🤯🇪🇸 pic.twitter.com/aQGdcaZksS
„Joselu… ég held að hann sofi ekki mikið í nótt! Hann verður alveg gagnslaus á æfingu á morgun,“ sagði Jude Bellingham léttur í sjónvarpsviðtali eftir sigurinn í gær.
„Hann á þetta allt skilið. Hann hefur verið magnaður félagi í þessum hópi í gegnum alla leiktíðina og þetta er hans kvöld,“ sagði Bellingham, hæstánægður með liðsfélaga sinn og hina óvæntu hetju.
Joselu kom ungur til Real Madrid og skoraði grimmt fyrir varalið félagsins þegar hann var að hefja ferilinn, fyrir tæplega fimmtán árum.
Fenginn vegna biðarinnar eftir Mbappé
Hann lék svo einnig í Þýskalandi og á Englandi án þess að slá sérstaklega í gegn þar. Hann lék eina leiktíð með Stoke, 2015-16, en félagið lánaði hann í burtu og losaði sig svo við hann til Newcastle þar sem mörkin urðu samtals sex í 46 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
Joselu sneri svo aftur til Spánar árið 2019 og hefur undanfarin ár skorað talsvert í spænsku deildinni, eða alls 36 mörk í 110 leikjum fyrir Alavés og svo 16 mörk í fyrra fyrir Espanyol, sem þó féll.
Real vantaði framherja eftir brotthvarf Karims Benzema í fyrra, sennilega bara tímabundið áður en Kylian Mbappé kæmi í sumar, og fékk því Joselu að láni. Það hefur borgað sig því hann hefur núna skorað alls sautján mörk í öllum keppnum, og þar af mörkin mikilvægu í gær sem skiluðu Real í úrslitaleik sterkustu deildar heims.