Orðrómur sem er lyginni líkastur skekur nú rúmenska knattspyrnu. Þannig er mál með vexti að hinn þrítugi Edgar, sem var á mála hjá Barcelona frá 2012 til 2015, samdi við Búkarest fyrr á þessu ári eftir að hafa sagt skilið við İstanbul Başakşehir í Tyrklandi. Nú er sá orðrómur farinn á kreik að Edgar hafi í raun aldrei spilað í Rúmeníu heldur sé um að ræða tvíburabróðir hans, Edelino.
Segir í frétt talkSPORT um félaginu hafi brugðið þar sem leikmaðurinn tali ekki stakt orð í ensku en félagið taldi að hann væri meira en fær um að tjá sig á ensku. Þess í stað gat hann aðeins tjáð sig á portúgölsku. Kom þetta sérstaklega á óvart þar sem Edgar hefur spilað víðsvegar um Evrópu.
Eftir að fara frá Barcelona til Villarel B þá samdi hann við Belenenses í Portúgal. Þaðan lá leiðin til Frakklands þar sem hann lék með Lille og Nantes. Lék hann einnig með hollenska stórliðinu Feyenoord áður en samið var við Trabzanspor í Tyrklandi. Þaðan færði Edgar sig yfir til Başakşehir og svo loks Búkarest.
Ofan á þetta á Edgar fjölda yngri landsleikja að baki fyrir Portúgal sem og hann lék á Ólympíuleikunum árið 2016. Hann lék einn A-landsleik árið 2017 en þar sem þeir urðu ekki fleiri og nægilega langt var liðið síðan hann lék landsleikinn fékk hann að skipta yfir til landsliðs Gínea-Bissá árið 2023. Síðan þá hefur hann leikið þrjá A-landsleik fyrir þjóðina.
Hvað Edelino varðar þá hefur hann að mestu haldið sig í Portúgal. Það er þangað til á síðasta ári þegar hann samdi við Tluchovia í Póllandi. Sá samningur rann út í janúar og er hann án félags.
Þá er vert að taka fram að á vefsíðunni Transfermarkt segir að Edgar sé miðvörður á meðan Edelino sé hægri vængmaður.
😲 La gran estafa del fútbol moderno: un ex del Barcelona ficha por el Dínamo ¡¡y su hermano gemelo se hace pasar por él!! 👬 https://t.co/FfVDdzHOEw
— MARCA (@marca) May 13, 2024
Dinamo Búkarest tekur málinu alvarlega enda gætu átta stig verið dregin af því komi í ljós að það hafi ítrekað spilað ólöglegum leikmanni. Ku félagið hafa beðið leikmanninn um að framvísa ökuskírteini en hann neitaði.
Háttsettur aðili innan rúmenska knattspyrnusambandsins sagði í viðtali við staðarmiðilinn iAMsport að það væru einfaldlega engin fordæmi né regluverk í kringum atvik sem þetta.
Dinamo Búkarest er í nægilega miklum vandræðum eins og er en liðið er sem stendur tveimur stigum frá öruggu sæti í efstu deild. Fari svo að stig verði tekin af liðinu blasir fallið einfaldlega við.