Bloomberg greindi fyrst frá. Luma Capital býður lánið, það er bandarískur einkafjárfestingasjóður sem sérhæfir sig í neyðarlánum til fyrirtækja í fjárhagskröggum.
Everton fellur undir þá skilgreiningu, heildartap félagsins braut fjárhagsreglur ensku úrvalsdeildarinnar og átta stig hafa verið dregin frá liðinu á yfirstandandi keppnistímabili.
Þá hefur eigandi Everton, Farhad Moshiri, reynt að losa sig undan 94 prósenta eignarhlut sínum. Hann samþykkti kauptilboð 777 Partners síðastliðinn september, en eftir frekari fréttir af fjárhagsörðugleikum félagsins dró 777 Partners tilboðið til baka.
Í gær var tíminn til að gera tilboð í Everton framlengdur og vonir eru bundnar við að 777 Partners gangi á endanum frá kaupum.
Meðal skilmála sem enska úrvalsdeildin hefur sett fyrir þeim kaupum er að 777 Partners skuldbindi sig í 100 milljón punda fjárfestingu til að klára byggingu á nýjum heimavelli Everton við Bramley-Moore höfnina í Liverpool.
Framkvæmdir hófust á nýjum velli í júlí 2021. Síðan þá hefur verið farið töluvert langt fram úr kostnaðaráætlun, sem var upphaflega um 500 milljónir punda en stendur í dag í um 800 milljónum punda.
Nýlega tilkynnti Everton að stefnt væri að því að klára framkvæmdir á árinu og flytja heimaleiki félagsins á nýjan völl frá og með tímabilinu 2025–26.