Gæsluvarðhald tveggja Litháa vegna manndrápsins sem þeir hafa sætt frá 20. apríl rann út síðdegis í dag. Lögregla krafðist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir öðrum þeirra en farbanns yfir hinum. Héraðsdómur Suðurlands hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni en féllst á farbannið.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að úrskurðurinn hafi verið kærður til Landsréttar og að hann verði vonandi tekinn fyrir sem fyrst.
Maðurinn sem lögreglan vildi fá áfram í gæsluvarðhald verður áfram í fangelsi þar sem hann hefur nú afplánun á útistandandi dómi í eldra máli. Jón Gunnar sagðist ekki þekkja nægilega til þess máls til þess að geta tjáð sig um það.
Rannsókn á dauða mannsins heldur áfram og miðar vel, að sögn Jóns Gunnars.
Tveir aðrir litháenskir karlmenn sættu gæsluvarðhaldi í fyrstu en var sleppt eftir tveggja daga vist.