Innlent

Öruggast að sjóða neyslu­vatn á Flat­eyri

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Loka þurfti fyrir vatnið í gær vegna aurskriðu.
Loka þurfti fyrir vatnið í gær vegna aurskriðu. Vísir/Vilhelm

Öruggast er að sjóða neysluvatn í dag og á morgun á Flateyri eftir að loka þurfti fyrir vatnið í bænum vegna aurskriðu í gær. Vatnið úr vatnsbólinu hafi verið mjög brúnt og þrátt fyrir að brunahanar hafi verið látnir ganga til að reyna að hreinsa lagnirnar hafi það ekki dugað til.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Ísafjarðarbæjar.

„Nú, fyrir hádegi á sunnudegi, er verið að skola út lagnirnar með vatni á tankbíl. Vatnið uppi í Klofningsdal er orðið nokkuð hreint og vonir standa til að hægt verði að hleypa vatni á öðru hvoru megin við hádegið,“ segir í tilkynningunni.

Vatnið verði þó líklega brúnt fyrst um sinn og þá þurfi að láta það renna einhverja stund.

Vatnið kom aftur á á Flateyri upp úr hádegi en það er ekki alveg tært. Því sé mælst til þess að það sé soðið áður en þess er neytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×